Erna Höskuldsdóttir Erna Höskuldsdóttir | miðvikudagurinn 10. október 2018

Lesfimi skólabarna hefur aukist

Lestur er lykillinn
Lestur er lykillinn

Skólaárið 2018-´19 er þriðja skólaárið sem lesfimipróf eru lögð fyrir en það er gert þrisvar á hverju skólaári – í september, janúar og maí – til að fylgjast með námsframvindu hvers nemanda. Fyrsta skólaárið var þátttaka lítil en hún hefur aukist mikið milli ára og fyrir vikið er samanburður orðinn framkvæmanlegur.

Samkvæmt niðurstöðum prófanna sem lögð voru fyrir í síðasta mánuði er breytingin mest hjá nemendum í 8. bekk, sem að meðaltali lásu þremur orðum meira á mínútu en haustið 2017. Nemendur í 2., 3., 5., 6., 7. og 10. bekk lásu einu til tveimur orðum meira að meðaltali en fyrir ári en nemendur í 1., 4. og 9. bekk lásu jafnmörg orð að meðaltali og haustið 2017. Í öllum tilvikum var árangurinn því jafn góður eða betri en í sömu bekkjum í fyrra.

Lesfimiprófin mæla lestrarnákvæmni og lestrarhraða barna en hvorki lesskilning, orðaforða né ritun. Menntamálastofnun vill árétta, að við heildarmat á læsi og lestrarfærni barna þarf að horfa til allra framangreindra þátta. Stofnunin vinnur nú að gerð lesskilnings-, orðaforða-, ritunar- og stafsetningarprófa sem kennarar geta nýtt í sínu starfi, kjósi þeir svo.

Niðurstöður lesfimiprófanna eru aðgengilegar fyrir kennara og skólastjórnendur í Skólagátt, rafrænu mælaborði Menntamálastofnunar, þar sem kennari getur fylgst með námsframvindu sinna nemenda á einfaldan og myndrænan hátt.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar:
„Þessar niðurstöður eru afar ánægjulegar. Þær benda til að með samstarfi allra lykilaðila – yfirvalda, skólastjórnenda, kennara og foreldra – náist góður árangur, þótt enn eigi eftir að koma í ljós hvort tekist hafi að snúa við þróun undanfarinna ára. Þessar jákvæðu niðurstöður eru í takt við okkar væntingar, enda skynjum við aukinn metnað og kraft hjá skólum, kennurum, foreldrum og fleirum gagnvart læsi. Þá virðist mér sumarlestur barna hafa verið meiri á liðnu sumri en oftast áður. Starfsfólk bókasafna talaði t.d. um að aðsókn barna á bókasöfn hefði aukist í sumar, þúsund börn tóku þátt í Söguboltanum og margir nýttu sumarlæsisdagatalið sem Menntamálastofnun útbjó sl. vor. Það eru gömul sannindi og ný, að aukinn lestur heima fyrir skilar sér nær undantekningalaust í auknum árangri nemenda.“
 
Góð niðurstaða úr lesfimiprófum er til marks um markvissa vinnu skóla, kennara, foreldra og ekki síst nemendanna sjálfra. Sú jákvæðni og samhugur sem einkennt hefur lestrarkennslu í skólum landsins er mikilvægt skref á þeirri löngu vegferð, að auka lestraráhuga og læsi til lengri tíma.

 

« 2024 »
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Könnunin

Valdir tenglar

Vefumsjón